Byggðarráð Borgarbyggðar

703. fundur

3. apríl 2025 kl. 08:15 - 11:00

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Davíð Sigurðsson - formaður
Guðveig Eyglóardóttir - varaformaður
Thelma Dögg Harðardóttir boðaði forföll og Brynja Þorsteinsdóttir - áheyrnarfulltrúi sat fundinn í hans stað
Sigurður Guðmundsson boðaði forföll og Ragnhildur Eva Jónsdóttir - varamaður sat fundinn í hans stað
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir boðaði forföll og Logi Sigurðsson - varamaður sat fundinn í hans stað

Starfsmenn

Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri
Lilja Björg Ágústsdóttir - Sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri

Dagskrá

1. Ársreikningur Borgarbyggðar 2024
2504002

Drög að ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2024 lögð fram. Til fundarins koma Halldóra Ágústa Pálsdóttir og Haraldur Örn Reynisson frá KPMG og sitja undir þessum lið. Einnig koma til fundarins Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri og Kristín Lilja Lárusdóttir aðalbókari Borgarbyggðar.

Drög að ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2024 lögð fram.

Rekstur A-hluta Borgarbyggðar var gerður upp með 319 m.kr. afgangi á árinu 2024 en samstæða A- og B- hluta skilaði afgangi upp á 440 m.kr. Rekstrartekjur A-hluta námu 6.556 m.kr. og samstæðu 7.551 m.kr. og jukust um 10% milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 486 m.kr. af A-hluta og 773 m.kr. af samstæðu. Veltufé frá rekstri A-hluta var jákvætt um 668 m.kr. og handbært fé frá rekstri 728 m.kr. en samstæða Borgarbyggðar skilaði veltufé frá rekstri að fjárhæð 892 m.kr. og handbæru fé frá rekstri upp á 992 m.kr.

Afkoma af rekstri er vel viðunandi og sjóðstreymi er sterkt sem endurspeglar góða fjárfestingargetu sveitarfélagsins. Afkoma af rekstri A-hluta er þó ívið lakari en árið áður og framlegð frá rekstri (EBITDA) var lægri en áætlað hafði verið, aðallega vegna meiri hækkunar á hreinum kostnaði við félagslega aðstoð en áætlað hafði verið.

Á árinu 2024 fjárfesti sveitarfélagið í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 1.018 m.kr. og var stærsta fjárfestingin í endurbyggingu Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum. Öll fjárfesting var fjármögnuð með sjóðstreymi frá rekstri og handbæru fé og því án lántöku.

Heildareignir A-hluta Borgarbyggðar voru í árslok 2024 bókfærðar á 10,2 ma.kr. og eignir samstæðu á 12,6 ma. Skuldir og skuldbindingar A-hluta námu 3,9 ma.kr. og samstæðu 5,8 ma.kr. Hreinar vaxtaberandi skuldir A-hluta (án lífeyrisskuldbindinga) voru í árslok um 1,4 ma.kr. Skuldaviðmið skv. fjárhagslegu viðmiði sveitarstjórnarlaga var 27% í árslok 2024 fyrir A-hluta og 35% fyrir A- og B-hluta saman sem endurspeglar hagstæða skuldastöðu og gott svigrúm til fjárfestingar.

Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2024 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.



Samþykkt samhljóða.

Fylgiskjöl


2. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga 2025
2503350

Farið yfir umsókn Borgarbyggðar um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Framlagt en umsóknin er nú til umfjöllunar hjá Lánasjóði sveitarfélaga en í umsókninni felst að lántaka vegna seinni hluta framkvæmda við endurnýjun húsnæðis GBF á Kleppjárnsreykjum og byggingar fjölnota íþróttahúss - knatthúss í Borgarnesi. Samtals er gert ráð fyrir að lántaka Borgarbyggðar hjá Lánasjóði sveitarfélaga verði 2,0 ma.kr. á árinu 2025.



3. Uppbygging í Borgarbyggð - kynningar- og markaðsmál
2501129

Farið yfir samkomulag við Onno ehf. um hönnun og smíði á vef fyrir kynningu og markaðssetningu á lóðum í Borgarbyggð og gerð tengds markaðsefnis.

Byggðarráð samþykkir framlagt samkomulag við Onno ehf. og vísar til fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn.



Samþykkt samhljóða.



Eiríkur og Kristín Lilja fara af fundi.



4. Fyrirkomulag sumarfría hjá starfsmönnum ráðhúss
2401098

Kynnt fyrirkomulag á opnun og afgreiðslu ráðhúss í sumarleyfum 2025 en áformað er að það verði með sama hætti og árið áður er lokað var í tvær vikur fyrir Verslunarmannahelgi.

Fyrirkomulagið verður með sama hætti og í fyrra. Markmiðið er að stytta það tímabil er sumarfrí starfsfólks hefur veruleg áhrif á þjónustu ráðhússins. Lagt er upp með að sem flestir starfsmenn taki sumarleyfi á þessum tíma fyrir utan einstaka starfsmenn í störfum þar sem ekki er mögulegt að verði rof á samfelldri þjónustu. Tryggt verður að nauðsynlegri þjónustu verði sinnt.



5. Kæra til Kærunefndar húsamála
2504008

Lagður fram úrskurður Kærunefndar húsamála.

Lagður fram úrskurður í máli IKAN gegn Fornbílafjelagi Borgarfjarðar og Borgarbyggð dags. 31. mars 2025. Í úrskurði nefndarinnar er kröfu á hendur Borgarbyggð vísað frá.

Fylgiskjöl


6. Endurbætur á miðálmu Grunnskólans í Borgarnesi
2310255

Farið yfir stöðu mála við vinnu við endurbætur á miðálmu Grunnskólans í Borgarnesi. Lögð fram tilkynning Borgarbyggðar til verktaka um riftun samnings. Guðný Elíasdóttir sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Hlynur Ólafsson verkefnastjóri framkvæmda hjá Borgarbyggð koma til fundarins.

Byggðarráð staðfestir riftun á samningi við Land og verk ehf. 510914-0230 um framkvæmdir við endurbætur á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Verkinu hefur miðað hægt og er langt á eftir áætlun. Stefnt er að því að vinna hefjist á ný sem fyrst og mun vonandi ljúka í sumar.

Grunnskólinn í Borgarnesi er stærsti vinnustaður sveitarfélagsins en um 340 börn eru við nám við skólann og starfsfólk ríflega 70 talsins. Þau eru beðin velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa og um leið þakkað fyrir skilninginn og æðruleysið.



Samþykkt samhljóða.



7. Snjómokstur í dreifbýli- Útboð 2025
2401233

Framlögð gögn vegna útboðs á snjómokstri í dreifbýli í Borgarbyggð 2025.

Byggðarráð samþykkir framlögð útboðsgögn og vísar til sveitarstjórnar.



Samþykkt samhljóða.



8. Brákarbraut 25, gamla sláturhúsið - áætlun um niðurrif
2409047

Framlögð opnunarskýrsla vegna útboðs á niðurrifi á hluta gamla sláturhússins.

Byggðarráð samþykkir að ganga að tilboði Ó.K. Gámaþjónusta - sorphirðu ehf. að öllum skilyrðum uppfylltum og vísar til staðfestingar í sveitarstjórn.



Samþykkt með tveimur atkvæðum (DS og GLE). Einn fulltrúi (REJ) sat hjá við afgreiðslu.



Bókun REJ: Þar sem mikilvæg gögn um málið bárust ekki á tilsettum tíma situr fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu þessa máls.



Guðný og Hlynur fóru af fundi að afloknum þessum dagskrárlið.

Fylgiskjöl


9. Aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur 2025
2503127

Framlögð dagskrá og fundargögn aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur 2025.

Framlagt og mætir sveitarstjóri til aðalfundarins fyrir hönd sveitarfélagsins.

Fylgiskjöl


10. Veiðifélag Norðurár - Aðalfundarboð
2503330

Framlagt fundarboð á aðalfund Veiðifélags Norðurár sem haldinn verður þann 7. apríl 2025.

Framlagt.

Fylgiskjöl


11. Aðalfundur Veiðifélags Álftár 11. apríl 2025
2504001

Framlagt boð á aðalfund Veiðifélags Álftár 2025.

Framlagt.

Fylgiskjöl


Fundi slitið - kl. 11:00